Sumarið

Sumarið okkar hefur verið alveg yndislegt…alltof fljótt að líða náttúrulega, en þannig er það alltaf. New York ferðin var frábær í alla staði.  Flugið gekk vel, fyrir utan það að við þurftum að bíða í klukkutíma í vélinni eftir lendingu sökum mikillar umferðar á JFK.  Það reyndi aðeins á þolinmæðina.   Fólkið sem við vorum hjá var alveg yndislegt og lét okkur líða eins og við værum heima hjá okkur.  Fyrsta daginn tókum við því rólega í Shirley, bænum sem við vorum í á Long Island, skoðuðum okkur aðeins um þar og versluðum í matinn, auðvelt að missa sig í matvörubúðunum enda úrvalið endalaust.  Daginn eftir tókum við fjölskyldan lestina inn í New York og eyddum deginum í að rölta á Manhattan, dúlla okkur í búðum og skoða okkur um.  Daginn eftir var ferðinni heitið aftur inn í borgina en planið var að hitta vinkonu mína sem kom frá North Carolina til að hitta okkur ásamt 2 börnum sínum..stelpu sem er jafngömul Kötlu og 8 mánaða strák.  En við kynntumst einmitt í gegnum póstlista á netinu fyrir jan2000 mömmur.  Það var virkilega gaman að hitta þau, stelpunum kom strax mjög vel saman og áttu eftir að skemmta sér mjög vel saman þó svo að þær skyldu hvor aðra ekki mikið:)  Þennan dag fórum við í American Girl Place en vinkonamín var að kaupa dúkkur þar handa 2 elstu stelpunum sínum….þessar dúkkur eru víst mjög vinsælar…hver dúkka er frá ákveðnu tímabili í bandarískri sögu og hægt er að kaupa ýmsa fylgihluti með hverri dúkku auk bóka þar sem þær eru aðalpersónan.  Búðin var ævintýraheimur út af fyrir sig, fyrir utan allt úrvalið af öllu sem fylgdi dúkkunum var m.a. bíósalur, veitingahús og staður fyrir myndatökur.  Eftir að hafa eytt ágætis tíma þarna var ferðinni heitið í American Museum of Natural History.    Safnið lokaði reyndar fyrr en við höfðum átt von á, en þegar við komum þangað var einungis um hálftími í lokun.  Af þessum sökum fengum við frítt inn og drifum okkur inn, náðum að skoða risaeðlubeinin sem var nú reyndar það sem við vorum spenntust fyrir.  En það verður bara efni í næstu ferð að skoða safnið betur:)  Safnið er staðsett við Central Park, þannig að við tókum okkur smátíma í að rölta þar um, sáum íkorna og þvottabjörn og krakkarnir léku sér í grasinu, mjög ljúft.  Við sáum samt bara lítið brot af garðinum, fleira sem er efni í aðra ferð:)  Eftir þetta var farið að síga á seinni hluta dagsins þannig að við fundum okkur veitingastað þarna nálægt og gripum með okkur tælenskan mat og tókum svo neðanjarðarlest á lestarstöðina, þaðan sem við tókum svo lest aftur til Shirley en ferðafélagar okkar tóku lest til bæjar sem heitir Ronkonkoma en þau gistu á hóteli þar.  Næsta dag var ferðinni enn og aftur heitið inn í borgina, en planið þann dag var að heimsækja Bronx Zoo . Við hittum vinkonu mína á Penn station og fundum þar rétta neðanjarðarlest til að komast til Bronx.  Við vorum búin að finna út að við ættum að fara út á ákveðinni stöð,en þegar við komum í lestina sáum við ekki nafnið á þeirri stöð á listanum yfir stoppistöðvarnar, þannig að við spurðumst fyrir í lestinni og einn farþeginn kíkti á kort fyrir okkur og sagði okkur á hvaða stöð væri best að fara út.  Þegar við komum þangað sáum við að við höfðum farið aðeins of langt og þurftum að labba smá spotta til að komast í dýragarðinn.  Reyndar leist okkur ekki alveg á blikuna þegar við komum út af lestarstöðinni…hehe….allt í frekar mikilli niðurníðslu og leið okkur svolítið eins og við værum stödd í bíómynd…enda er Bronx eitt af fátækari hverfunum í New York og þá sérstaklega svæðið í kringum dýragarðinn (fréttum við seinna).  Ég hefði allavega ekki viljað vera á gangi þarna eftir myrkur.  En þetta gekk alltsaman vel.  Dýragarðurinn var alveg magnaður, en þrátt fyrir að eyða 4 tímum þar (vorum komin seinna en við ætluðum okkur) þá náðum við ekki að sjá allt sem við höfðum ætlað okkur að skoða, en vorum samt mjög ánægð með daginn.  Krakkarnir skemmtu sér sérstaklega vel í barnadýragarðinum og pödduhringekjunni.   Daginn eftir var svo mjög ljúft að slaka á á ströndinni í Shirley, en vinkona mín og krakkarnir komu og eyddu þeim degi með okkur líka.  Við borðuðum svo öll kvöldmat saman og skutluðum þeim svo heim á hótel en þau þurftu að vakna snemma næsta morgun til að taka lest heim.  Næstu 2 dagar fóru svo í að versla, versla og versla aðeins meira:)  Það sem við gerðum svo það sem eftir var af ferðinni var að fara aftur inn í borgina, þann dag skoðuðum við Empire State sem var mikil upplifun, vorum heppin með veður þannig að útsýnið var mjög gott.  Við létum okkur „nægja“ að fara upp á 86. hæð en þar er aðal útsýnisaðstaðan, það er líka hægt að fara alla leið upp á 102. hæð.  Eftir það héldum við áfram að kanna borgina, gengum út á Brooklyn brúna, skoðuðum ground zero, var nú svosem ekki mikið að sjá þar…og Battery park..en þaðan er hægt að taka bát út að frelsisstyttunni, sem við gerðum ekki.  En sáum hana úr fjarlægð.  Við komum líka við á leikvelli þar sem stelpurnar skemmtu sér vel og þar hittum við íslenska konu sem býr í New York. Einum degi eyddum við svo í Adventureland skemmtigarðinum á Long Island sem var mjög skemmtilegur.  Katla ofurhugi fór í öll tækin og sum þeirra oftar en einu sinni:)  Við Sæbi skemmtum okkur líka mjög vel og það voru mörg barnatæki sem hentuðu vel fyrir Heklu.  Frábær dagur þar.  Svo fórum við í smá ferðalag með hjónunum sem við gistum hjá, keyrðum með þeim upp að West Point herskólanum en einn af sonum þeirra útskrifaðist þaðan í maí.  Þau sýndu okkur allt skólasvæðið sem var mjög gaman að sjá, mjög fallegt svæði.  Þau voru líka að sækja húsbíl sem þau eiga sem var í geymslu þarna nálægt og vorum við Sæbi og stelpurnar í honum á leiðinni tilbaka og létum fara vel um okkur.   Daginn eftir var svo flugið okkar heim og gekk það allt saman vel fyrir sig, þurftum reyndar aðeins að endurpakka á flugvellinum þar sem að ein af töskunum okkar var allt of þung en það blessaðist allt saman:)  En ég held að ég láti þetta nægja í bili:)  Er búin að setja inn myndir úr ferðinni….myndaalbúmið er læst en ef einhver vill kíkja er um að gera að senda mér línu og biðja um lykilorðið.

Auglýsingar

Sumar og sól

Já, við höfum fengið marga góðviðrisdaga að undanförnu og höfum við sólbrunnin nef til að sanna það:)  Svona á sumarið að vera.  Mamma og pabbi komu í heimsókn í síðustu viku, við skelltum okkur í bíltúr á laugardaginn að Gullfossi og Geysi, það var virkilega gaman, frábært veður og góður félagsskapur.  Komum svo aðeins við á Sólheimum í bakaleiðinni og keyptum okkur lífræna ávexti og grænmeti.  Annars hefur ýmislegt gerst síðan ég bloggaði síðast enda langt um liðið.  Meðal annars náði ég þeim merka áfanga að verða þrítug…neita því samt að vera komin á fertugsaldur…..það gerist ekki alveg strax:)  Annars líður mér nú bara vel með þetta.  Afmælisdagurinn sjálfur var mjög góður…fékk 30 rósir sendar til mín í vinnuna frá Sæba og stelpunum og ýmsar aðrar góðar gjafir.  Við fjölskyldan fórum út að borða daginn áður og svo hélt ég smá veislu 7. júní sem heppnaðist mjög vel.  Ég fékk líka hjól í afmælisgjöf og við keyptum svo stól á hjólið fyrir Heklu þannig að við stelpurnar höfum verið duglegar að hjóla um hverfið að undanförnu, nú þarf Sæbi að fara að fá sér hjól þannig að við getum öll skellt okkur í hjólatúra.  Katla komst í sumarfrí 6. júní og stóð hún sig mjög vel í skólanum að vanda skvísan.  Hún fór svo á fótboltanámskeið hjá Leikni vikuna eftir það og fékk svo að fara norður með mömmu og pabba á mánudaginn og ætlar að vera þar í 2 vikur.  Nú styttist líka í að við förum út en það eru ekki nema 10 dagar í það að Sæbi fari og 3 vikur hjá okkur stelpunum og við farin að hlakka mikið til.   Við áttum líka góðan dag í dag…vorum komin í bæinn um hálftvö..byrjuðum á því að fara á Arnarhól og vorum þar í um klukkutíma að horfa á skemmtidagskrána, Hekla var nú ekki alveg sátt við það að dagskráin skyldi byrja á Hamrahlíðarkórnum þegar hún var að bíða eftir því að sjá Skoppu og Skrítlu:)  En hún var svo líka mjög sátt þegar þær létu sjá sig.  Við tókum svo smá rölt um bæinn og rákumst á nokkra sem við þekktum.   Fórum svo í blöðruleiðangur en það var búið að lofa því að kaupa Dórublöðru og kom í ljós að þær fengust nú ekki í hverju einasta tjaldi.  En fundust að lokum og Hekla mjög ánægð með Dórublöðruna sína.  Fórum svo heim með smá viðkomu í Krónunni þar sem við keyptum smá á grillið.  Það vildi svo ekki betur til en svo að Hekla fór með blöðruna sína út á svalir og missti hana þar og var mikil sorg að sjá á eftir Dórublöðrunni..svo mikil að ég skaust í Hagkaup og keypti nýja blöðru handa henni…fann að vísu ekki aðra Dórublöðru en Strawberry Shortcake var tekin í sátt:)  Svo þegar átti að fara að koma prinsessunni í háttinn tók Sæbi eftir því að hamstrabúrið var ekki nógu vel lokað…aha…og hamsturinn ekki á sínum stað í búrinu!  Þá upphófst mikil leit að kvikindinu…..íbúðinni var bókstaflega snúið á hvolf…..og ekki fannst hamsturinn….komum Heklu í háttinn og héldum svo áfram að leita…áttum bara eftir að taka fram uppþvottavélina og ísskápinn…þegar ég heyri smáþrusk í eldhúsinu og fer að líta betur í kringum mig þar…kemur ekki hamsturinn trítlandi út á milli uppþvottavélarinnar og eldhúsinnréttingannar!  Vorum nú ekkert smá fegin að sjá að hann var lifandi.  Tók smá tíma að ná honum en hafðist sem betur fer að lokum.  Eitt gott kom reyndar útúr öllu þessu drama og það er það að við erum búin að þrífa á bakvið öll hugsanleg húsgögn og úr öllum skúmaskotum:)  Og það er á hreinu að það verður betur passað upp á það að búrið sé kirfilega lokað eftir þetta!

Hekla Sif á youtube

Skellti smá myndbroti af Heklu inn á youtube….hún horfði svo á sjálfa sig aftur og aftur og hafði alltaf jafn gaman af:)

 

Hvers virði er ég?

Það hefur lítið verið bloggað hér að undanförnu…tími til kominn að bæta aðeins úr því.  Það helsta sem hefur verið í gangi hjá okkur að undanförnu er það að körfuboltatímabilið er búið hjá Sæba í bili..það er að segja hjá meistaraflokknum og því miður komst Valur ekki upp í úrvalsdeild að þessu sinni..voru hársbreidd frá því, en svona er þetta bara.  Við fórum á árshátíð hjá Íbó 11. apríl, hún var haldin í turninum í Kópavogi og nei, það kviknaði ekki í:)  Skemmtum okkur mjög vel..gaman að koma þarna í turninn, frábær matur og fín stemning.  Um síðustu helgi fórum við svo á frumsýningu á „Hvers virði er ég?“ í boði Byrs sparisjóðs.  Það var virkilega gaman….Bjarni Haukur fór á kostum og ekki verra að geta hlegið að fjármálunum svona á þessum síðustu og verstu tímum:)  Við skelltum okkur svo út að borða eftir sýninguna…ætluðum á Santa María á Laugaveginum (mig dreymir enn um Mole sósuna þeirra ) en þar var búið að loka eldhúsinu. Svo að við fengum okkur gönguferð í góða veðrinu og enduðum á American Style.  Virkilega notalegt kvöld og stelpurnar í góðum höndum hjá nýju barnapíunni…mjög heppin með hana.  Á laugardaginn var svo opið hús í leikskólanum hjá Heklu, gaman að kíkja þangað og fá betri innsýn í leikskólastarfið.  Heklu fannst þetta nú frekar skrítið til að byrja með að vera mætt í leikskólann með fjölskylduna í eftirdragi en hún jafnaði sig fljótt á því.  Katla er á fullu í fimleikunum, ég fór og horfði á æfingu hjá henni á mánudaginn, gaman að sjá hvað henni hefur farið fram.  Við fengum svo mjög skemmtilegt símtal í kvöld, en vinkona mín sem ég hef verið með á mömmupóstlista frá 1999 hringdi í okkur frá Bandaríkjunum.  Hún og hennar fjölskylda búa í Raleigh í North Carolina og hún og dóttir hennar sem er jafngömul Kötlu eru að spá í að koma og hitta okkur í New York í sumar.  Stelpurnar hafa verið að skrifast á undanfarna mánuði…Katla skrifar á íslensku og ég þýði svo fyrir hana…þeim fannst mjög spennandi að fá að spjalla aðeins saman í símann.  Virkilega gaman að heyra í þeim mæðgum og ég vona að við getum látið verða af því að hittast í sumar.  Þetta er svona það helsta sem hefur gerst hjá okkur að undanförnu….erum líka að vinna í því að Hekla hætti með bleiu..það gengur ágætlega.  Sjónvarpsfjarstýringin okkar gaf svo upp öndina áðan…sem er ekki gott mál þegar það er barnalæsing á sjónvarpinu og eingöngu hægt að kveikja á því með fjarstýringunni…hmm…veit ekki hvernig þetta endar..ætli við neyðumst ekki til að fara að tala saman:)

Páskarnir

Málshættirnir í ár:

Rakel: Ást gefur endurást (frá Freyju)

Sæbi: Sá gefur tvisvar sem gefur fljótt (frá Nóa)

Katla: Bjalla er bjórfullur maður (frá Nóa) og Vini skal varlega reyna (frá Góu)

Hekla: Sætur er ábata þefurinn (frá Nóa)

Við áttum annars mjög rólega og notalega páska.  Vöknuðum frekar snemma á páskadag, leituðum að páskaeggjunum, dunduðum okkur við að horfa á sjónvarpið, perla, lesa, narta í páskaeggin og elduðum páskamatinn í rólegheitum, ósköp ljúft og notalegt:)

Mamma ekki syngja…

Ef að Simon Cowell þarf á smá fríi að halda þá gæti Hekla auðveldlega tekið að sér að leysa hann af.  Hún var að syngja „Fyrst á réttunni, svo á röngunni…“ og mér varð það á að taka undir, fékk ég þá ekki þetta skemmtilega komment „Mamma ekki syngja fyrst á réttunni! Loka munninum mamma!“ Ekkert verið að skafa utan af því:)  Annars er það helst í fréttum hjá okkur að nýr fjölskyldumeðlimur bættist við hjá okkur um helgina.  Katla er orðinn stoltur hamsturseigandi.  Hamsturinn Ósk er flutt inn í herbergið þeirra systra við mikla gleði.  Og lúmska ánægju mömmunnar:)  Við fórum á sunnudaginn og keyptum búrið, vorum svo heppin að fá notað búr með fullt af fylgihlutum á góðu verði.  Svo hófst leytin að hamstrinum, hringdi í nokkrar gæludýrabúðir en það virtist vera lítið af hömstrum í boði.  Þeir fundust svo að lokum í gæludýrabúðinni á móti Kringlunni en þar voru nýkomnir ungar, þvílíku krúttin og Katla var ekki lengi að velja sér einn.  Og Hekla er mjög sátt við að „músin“ búi í herberginu þeirra.  Við fórum svo í foreldraviðtal í skólanum hjá Kötlu í dag.  Það er alltaf jafn gaman, svo að maður monti sig nú aðeins, en hún er alltaf jafn dugleg og allt gott um hana að segja.  Kennarinn lýsti henni sem valkyrju, bæði í náminu og utan þess, mér þykir það nú ekki slæmur kostur:)  Við ætlum svo að skella okkur í bústað um helgina, hlakka til að slappa af í sveitasælunni:)

Öskudagur

katlaminni.jpgheklaminni.jpg

Hér á bæ var mikil ánægja með öskudaginn.  Katla fór í Álfheima í dag, þar var ýmislegt brallað fyrir hádegi og svo farið á öskudagsball í Miðbergi eftir hádegið.  Hún fékk svo að fara með vinkonu sinni út í Hólagarð að syngja og þær uppskáru smá nammi fyrir það.  Hekla var nú ekkert alltof hrifin af því að fara í búninginn sinn í morgun, en var svo mjög sátt þegar hún var komin í hann og skemmti sér vel á öskudagsballi í leikskólanum. 

Til hamingju með afmælið Katla Dögg !!!!

20035311097_2.jpg20035311097_3.jpg200353110376_0.jpg1012091102372_1.jpg20021127212445_0.jpg20031113248_1.jpg20040726201736_0.jpg20050819142107_1.jpg20060412222136_4.jpg20070625212820_6.jpg20071003215019_10.jpg20071004224043_13.jpg

 Elsku stóra stelpan okkar er 8 ára í dag, innilega til hamingju með daginn Katla mín:)  Hér verður vafalaust mikið fjör í dag, bekkjarafmæli á eftir með hrekkjavökuþema að ósk prinsessunnar og svo kemur fjölskyldan í kaffi eftir það.  Set kannski inn myndir frá afmælinu á morgun ef ég hef orku í það:)

Bréf til sveinka

20071215091346_0.jpgAlveg er ég komin með nóg af hvassviðrinu hér á suðvesturhorninu þessa dagana, kolbrjálað veður dag eftir dag. Katla fór ekkert í skólann í dag, hún átti að mæta í íþróttir í fyrsta tíma í morgun og hefði þá þurft að labba frá íþróttahúsinu yfir í skólann, þannig að við ákváðum að láta hana sleppa þeim, hún fékk að vera heima hjá vinkonu sinni sem býr í sama húsi og við og mamma hennar ætlaði svo að skutla þeim í skólann, en svo kom í ljós að það var ekki kennsla þannig að hún var hjá vinkonunni fram að hádegi en þá sótti ég hana og hún var með mér í vinnunni eftir hádegið. Hingað til hafði ekkert skemmst hjá okkur en serían á svölunum var rétt í þessu að gefa upp öndina, kannski ekki skrítið miðað það sem á undan er gengið. Annars er bara nóg að gera hjá okkur við jólaundirbúning og ýmislegt stúss….fór með stelpurnar í jólaklippinguna í dag, skutumst svo í Bónus og svo komu Orri og Bjarni Dagur í pössun til okkar, þannig að það var fjör hjá okkur hér í kvöld með 4 hressa krakka. Háttatíminn var frekar skondinn, Orri og Katla voru mjög fljót að sofna, en litlu dýrin Hekla og Bjarni Dagur voru ekki á því að fara að sofa, endaði með því að við færðum Bjarna Dag inn til okkar og létum hann sofna þar. Katla hafði smá áhyggjur af því að Þvörusleikir héldi kannski að þær systur væru eitthvað að reyna að svindla með því að setja 4 skó í gluggann þannig að henni fannst öruggara að skilja eftir bréf til hans með útskýringu hvernig stæði á þessum aukaskóm í glugganum:)

Ástarjátningar belju um nótt….

Grípandi titill ekki satt:) En við þetta vaknaði ég reyndar í nótt…..Hekla á semsagt litla kusu sem er eitt af útvöldum tuskudýrum sem hún sefur með.  Ef ýtt er á magann á beljunni þá heyrist ískrandi hlátur…sem er reyndar orðinn frekar krípí…batteríin sennilega orðin hálfslöpp…og svo heyrist „I love you“….ég semsagt vaknaði við það í nótt að beljan endurtók þetta stanslaust inni í herbergi hjá stelpunum…Hekla hefur sennilega legið ofan á henni….ég klemmdi aftur augun og ætlaði nú ekki að nenna á fætur…gafst svo upp og fór fram og að sjálfsögðu þagnaði kvikindið um leið og ég steig fæti inn til þeirra:) 

Jólaspenningurinn er svo aðeins farinn að gera vart við sig á heimilinu…Katla bað mig að skrifa niður í hvaða röð jólasveinarnir koma til byggða….hún ætlar að búa til litla gjöf handa hverjum og einum…bara sætt.  Það hefur verið siður hjá okkur síðustu ár að skilja eftir skyr í glugganum handa skyrgámi enda er hann uppáhalds jólasveinn Kötlu, en núna ætlar hún semsagt að bæta um betur og gefa þeim öllum gjöf…verður gaman að fylgjast með þessu hjá henni:)

« Older entries