Spurning dagsins….

Ætlar þú að kaupa þér kind?   Verð að viðurkenna að það freistar mín:)  Hehe….kannski maður skelli sér bara á eina….og þó…kannski væri skynsamlegra að fjárfesta í skuldafælu sem er á tilboði í nornabúðinni til 15. mars:)

Auglýsingar

We are made of starstuff…..

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla:)  Það sem stendur uppúr hjá mér á árinu 2007 er tvímælalaust Þýskalandsferðin okkar, virkilega vel heppnuð og skemmtileg ferð í alla staði.  Við höfðum það annars mjög gott um jól og áramót.  Fórum í jólaboð á jóladag og annan í jólum.  Vorum svo bara heima í rólegheitum á gamlárkvöld.  Elduðum kalkúnabringur sem heppnuðust mjög vel og tókum því svo bara rólega.  Er svo ekki skylda að hafa skoðun á skaupinu…mér fannst það bara mjög gott í ár.  Batnaði meira að segja bara við annað áhorf:)  Veðrið var nú ekki upp á sitt besta þannig að við skutum ekki mikið upp.  Sæbi og Katla fóru aðeins út um miðnættið og skutu aðeins, en Hekla sofnaði klukkan 22, gersamlega búin eftir daginn, þannig að ég naut bara útsýnisins af svölunum.  Við fórum svo á brennu á nýársdag og skutum þá upp afganginum af flugeldunum okkar.  Hekla var nú alls ekki hrifin af öllum þessum látum, leist svo alls ekki á blikuna á þrettándanum, en það var ansi mikið skotið þá.  

En svona til að skýra fyrirsögnina þá er ég búin að vera á smá nostalgíutrippi undanfarna daga, komst að því að það er hægt að horfa á brot úr Cosmos þáttunum inni á youtube:)  Það má segja að ég hafi tekið heilan áfanga í FVA í þessum þáttum, Rau 103 (þú manst nú eftir því Inga Sigga), og aðalkennsluefnið voru þessir frábæru þættir.  Carl Sagan var orðinn eins og gamall vinur:)  Skelli hérna inn smá broti.

Gleðileg jól!!!

Óska öllum sem villast inn á þessa síðu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári:)  Set hérna með eitt af mínum uppáhaldsjólalögum, verst að það er ekki til á youtube í flutningi Páls Óskars og Moniku.  Njótið jólanna í faðmi fjölskyldunnar og dekrið og látið dekra við ykkur:)

Jólastúss

Kominn desember….3 vikur til jóla….alveg magnað hvað tíminn er fljótur að líða…nú er bara um að gera að njóta þessara daga sem eftir eru í botn, það ætla ég að gera.  Við erum langt komin með jólagjafirnar.  Ég, Inga Sigga og Lísa fórum í jólagjafaleiðangur í Smáralind á fimmtudaginn.  Ég náði að kaupa 3 jólagjafir þar, þar af 2 sem ég var ekki komin með neinar hugmyndir um hvað ég ætti að kaupa handa viðkomandi, þannig að ég var mjög ánægð með árangurinn:)  Við Inga Sigga höfðum það svo gott um kvöldið og horfðum á einn þátt í seríu 3 af Grey’s sem Inga Sigga fjárfesti í:)  Svo áb föstudagskvöldið var jólagleði í vinnunni hjá mér, það var mjög vel heppnað.  Inga Sigga gisti hjá okkur og stelpurnar fengu að vera heima með henni sem var algjör snilld.  Svo drifum við okkur á fætur í gærmorgun og fórum á opið hús hjá leikskólanum hennar Heklu, þar var piparkökubakstur og föndur í boði, mjög skemmtilegt.  Heklu fannst þetta nú hálfskrítið til að byrja með en skemmti sér svo mjög vel.  Eftir það færðum við okkur um set yfir í Hólabrekkuskóla en þar var einnig jólaföndur.  Katla bjó til mjög fallegan snjókarl og við máluðum nokkrar piparkökur.  Fórum svo aðeins heim og fengum okkur að borða og kíktum svo í nýju Hagkaupsbúðina í Holtagörðum, ætluðum nú eiginlega bara að rölta einn hring, sáum fyrir okkur að það yrði svo hrikalega löng biðröð á kössunum ef við færum eitthvað að versla.  En enduðum svo á því að finna 3 jólagjafir þannig að við skelltum okkur í röð, tók reyndar mun styttri tíma en við höfðum búist við.  Planið er svo að byrja að skreyta í dag.  Við erum búin að setja upp eina seríu í stofugluggann, og ég hélt í aðventukranshefðina mina og bjó til „aðventukrans á 5 mínútum“ 3. árið í röð, heppnaðist mjög vel þó ég segi sjálf frá.  Garðheimar klikkuðu reyndar aðeins þetta árið, buðu ekki upp á kerti og skraut saman í pakka, en það reddaðist:)  Skelli inn mynd við tækifæri:)

Bústaður

Sit hérna ljósblá og stíf í framan….eins gott að það er ekki vefmyndavél á blogginu….:)  Er með einhvern svaðalegan hreinsimaska á andlitinu…..vantar bara gúrkusneiðarnar á augun.  En annars er allt gott að frétta af okkur fjölskyldunni…við hjónin fórum í foreldraviðtal í skólanum hjá Kötlu um daginn og fengum aldeilis lofræðu um skvísuna…hún er svo dugleg og stendur sig svo vel…daman komin með 8 í lestri sem dæmi…gaman að heyra þetta:)  Við stelpurnar ásamt Lísu og Ingu Rut drifum okkur svo í sumarbústað um helgina…alltaf gaman að skella sér í bústað.  Sæbi reddaði okkur Húsasmiðjubústað á Flúðum.  Við Lísa og stelpurnar drifum okkur af stað eftir vinnu á föstudaginn og Inga Rut kom svo á laugardeginum.  Þetta var virkilega skemmtilegt, mikið spjallað, spilað, föndrað og borðaður góður matur! Við nýttum nú pottinn ekkert sérstaklega vel, bæði var hann helst til heitur og gekk illa að stilla hitastigið og svo var veðrið ekkert alltof gott, rok og rigning mestallan laugardaginn.  En við höfðum það nú bara notalegt inni í hlýunni.  Læt þetta duga í bili…farin að pilla af mér maskann:)

Loksins blogg

img_7978.jpgimg_7977.jpgimg_7969.jpgimg_7970.jpgJæja, löngu kominn tími á nýtt blogg….veit ekki hvar ég á að byrja…er að horfa á Opruh með öðru auganu, áhugaverður þáttur um hamingjuna.  Var einmitt verið að sýna innskot um hláturjóga, hef einu sinni prófað það, væri alveg til í að stunda það reglulega, virkilega skemmtilegt.  Annars er bara allt ágætt að frétta af okkur fjölskyldunni.  Lífið komið í rútínu eftir sumarið og nóg að gera hjá okkur öllum.  Ég og stelpurnar ásamt Lísu skelltum okkur norður um síðustu helgi í afmælisveislu hjá mömmu.  Það var virkilega skemmtilegt.  Ekki oft sem að öll fjölskyldan (eða næstum öll) er saman komin.   Skelli hér inn nokkrum myndum.   Næsta vika verður svo spennandi hjá mér…eða ég vona það að minnsta kosti:) Er að fara á matreiðslunámskeið hjá himneskri hollustu á mánudagskvöldið, hlakka mikið til:)  Svo er ég líka að byrja á 8 vikna rope yoga námskeiði, verður gaman að prófa það:) 

Auf wiedersehen!!!!

Já, eftir nokkra klukkutíma höldum við á vit ævintýranna í Þýskalandi:)  Ég ætlaði nú eiginlega að vera farin að sofa en datt í að horfa á splunkunýjan Men in trees þátt…ekki leiðinlegt að endurnýja kynnin þar:)  Hefur nefnilega verið pása á sýningu þáttanna í nokkra mánuði….fyrstu 17 þættirnir í seríunni voru sýndir og síðan ekki söguna meir…fyrr en núna að þeir eru farnir aftur í gang á Nýja sjálandi og að sjálfsögðu komnir í dreifingu á netinu.  En held að ég fari nú að koma mér í rúmið…verður áhugavert að vekja stelpurnar kl 4:00….kemur í ljós hvernig það gengur…en við verðum allavega að vera mætt í Leifsstöð ekki seinna en 5:50…það er að segja ef við ætlum ekki að þurfa að dansa mauradansinn í tíma og ótíma í ferðinni….löng saga…..hehe….Bratwurst og sauerkraut og allt það….hér kem ég:)

Cortes, Sigló og Málfríður….

Ég sit hér og hlusta á Cortes, fínasti diskur.  Einhverstaðar á ég áritaða mynd af kappanum, frá Nonna og Manna tímabilinu.  Ég ætti eiginlega að grafa hana upp og athuga hvort að ég geti ekki selt hana fyrir stórfé á Ebay:) Annars er allt með kyrrum kjörum hér, skvísurnar löngu sofnaðar og Sæbi í Gautaborg.  Fór með 8. flokkinn sinn á Göteborgs basketball festival.  Kemur heim á miðvikudaginn.  Ég skrapp með stelpurnar á Sigló á miðvikudaginn.   Það var mjög notalegt eins og alltaf, Katla krækti sér reyndar í kvef þannig að við vorum ekki mjög mikið úti við.  Við lögðum svo í hann heim í gærmorgun, með smá viðkomu á Ólafsfirði.  Mamma og pabbi komu með okkur þangað.  Virkilega gaman að kíkja þangað.  Heimsóttum Jóa og fjölskyldu í nýja húsið og svo líka Rúnar og Önnu.  Við vorum svo komnar hingað heim um níuleytið í gærkvöldi.  Vorum orðnar frekar þreyttar.  Ég var viss um að Hekla myndi nú sofna fljótlega eftir að við lögðum af stað og sofa svolítið á leiðinni, en nei, hún vakti alla leiðina.  Hún sofnaði líka áður en hún lagðist á koddann í gærkvöldi:) Ég startaði sölusíðu á barnalandi um daginn, svo að ég auglýsi nú aðeins:)  Hefur farið ágætlega af stað.  Vöruúrvalið er nú ekki mjög fjölbreytt svona til að byrja með, en á kannski eftir að aukast ef vel gengur:)

Gleðilegt sumar:)

Já, það er komið sumar, í tilefni af því tók ég niður jólaseríuna úr stofuglugganum í gær:)  Annars áttum við mjög góðan dag í gær, veðrið var yndislegt, hefði mátt vera aðeins hlýrra, en ekki hægt að kvarta yfir því samt.  Við skunduðum á sumardaghátíð í Miðbergi, þar var ýmislegt um að vera.  Meðal annars var söngatriði frá fríststundaheimilunum, Katla var þar í hópnum.  Þau tóku Eurovisionlagið og gerðu það mjög vel, eða eins og kynnirinn sagði, Eiríkur Hauksson hvað!  Svo voru grillaðar pylsur, andlitsmálun og fleiri skemmtiatriði.  Við röltum svo heim og sóttum bílinn, kíktum í smá bíltúr niður í bæ.  Ætluðum svo að kíkja til Bjarna og Erlu, en þau voru þá nýkomin til Bjarna og Xuan, þannig að við fórum þangað og stoppuðum í smástund og krakkarnir léku sér úti í garði.  Við buðum svo Bjarna, Erlu og strákunum í mat um kvöldið, þannig að við komum við í Bónus á leiðinni heim og keyptum kjúkling á grillið.   Sæbi fúgaði svo eldhúsflísarnar, náði reyndar ekki alveg að klára….þar sem að við gerðum smá tæknileg mistök við að blanda fúguna í fyrstu tilraun…*hóst*….en við ætlum að kaupa meiri fúgu í dag, þannig að við ættum að geta klárað þetta í kvöld. 

Ég var í byrja í smá átaki varðandi mataræði og hreyfingu.  Skráði mig á þessa síðu hér sem er alveg bráðsniðug.  Auðvelt að setja sér markmið og fylgjast með árangrinum, ég fæ hugmyndir að æfingum og ýmsan fróðleik sendan í tölvupósti.  Einnig er hægt að fá tillögur að matseðlum og ýmislegt fleira.  Þarna er líka boðið upp á allskyns spjallgrúppur, og þú getur búið til þína eigin heimasíðu, þar sem þú skráir ýmsar upplýsingar um þig og þín markmið.  Mæli með þessari.  Ef einhver vill vera „memm“ þá endilega látið mig vita, þá get ég bætt ykkur við sem vini:)  Ég var hrikalega dugleg áðan (að mínu mati), gerði 50 magaæfingar og sippaði í smástund….komst að því að ég er í enn verra formi en ég hélt…. var gjörsamlega að kafna eftir að sippa hratt 40 sinnum……en nú skal það breytast!

Við Hekla erum í fríi í dag, það er starfsdagur hjá dagforeldrum þannig að við erum búnar að hafa það mjög náðugt….fórum reyndar á fætur í morgun og keyrðum Sæba í vinnuna þar sem að ég þurfti aðeins að stússast í morgun.  Annars erum við bara búnar að vera heima í dag.  Hún sefur úti í vagni eins og er og Katla var að koma heim úr skólanum.  Við ætlum svo að skreppa út í búð á eftir og versla í matinn.  Mamma og pabbi eru svo að koma í kvöld…þau ætluðu ekki að koma fyrr en á morgun, en þar sem veðurspáin fyrir morgundaginn er frekar leiðinleg þá ákváðu þau að drífa sig af stað.  Og við kvörtum nú ekki yfir því að fá þau degi fyrr:) 

Meiri snjór og maður lifandi

Jæja löngu kominn tími á nýtt blogg:)  Hélt að ég yrði ekki eldri í morgun…í fyrsta lagi þá var allt orðið hvítt einu sinni enn þegar ég leit út um gluggann…gærdagurinn gaf svona smá von um að það væri að koma vor en nei…..snjór og læti í morgun.  Svo byrjaði gamanið þegar við lögðum af stað í vinnuna…ég veit ekki hvort að fólk hefur fyllst bjartsýni í gær og streymt á dekkjaverkstæðin eða hvað en allavega þá tók það okkur um það bil hálftíma að komast yfir í seljahverfið með Heklu til dagmömmunnar og svo sátum við heillengi föst í bílaröð í götunni hjá henni…og svona til að taka stuttu útgáfuna af þessu þá var ég rúman klukkutíma á leiðinni í vinnuna eða ca. 45 mín lengur en venjulega….bara gaman eða þannig. 

Ég sótti svo stelpurnar eftir vinnu, við skutumst aðeins heim og fengum okkur að borða og svona og ég skutlaði þeim í pössun til tengdó.  Ég brunaði hinsvegar niður í maður lifandi og skellti mér á örnámskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni.  Þetta var mjög skemmtilegt.  Þetta var svona smá tilraunastarfssemi hjá honum því að þetta var fyrsta örnámskeiðið sem hann hefur verið með.  En mér fannst hann nú bara komast yfir heilmikið á þessum eina og hálfa tíma sem námskeiðið var.  Kjarni námskeiðsins var sá að vera ekki að miða sig of mikið við verk annarra og ekki að hengja sig í bókmenntafræðilegum reglum…heldur bara láta vaða og skrifa.  Skrifa um það sem þér þykir skemmtilegt, það sem vekur áhuga þinn.  Við fengum svo smá verkefni….fengum uppgefin nokkur orð og áttum svo að skrifa ævintýri á 10 mínútum.  Þetta voru svona klassísk orð sem koma fyrir í ævintýrum eins og kastali, prinsessa, dreki….og maður settist bara niður og skrifaði…reyndist alveg ótrúlega auðvelt og gaman að heyra hvað það urðu til ólík ævintýri.  Aldrei að vita nema maður drífi sig á „alvöru“ námskeið hjá honum einhvern daginn. 

Annars er bara allt gott að frétta hjá okkur….allir hressir….Sæbi á kafi í körfunni…meistaraflokkurinn kominn í úrslit í 1. deildinni, og það kom í ljós í kvöld að þeir mæta þar Stjörnunni…fyrsti leikur á laugardaginn.  Kannski maður sýni smá lit og skelli sér…hef nú ekki verið dugleg að mæta á leiki hjá honum í vetur.  En þetta er spennandi…allt að gerast. 

Ég var líka að skella nýrri uppskrift inn á matargatið…allir að kíkja:)

« Older entries