Sumarið

Sumarið okkar hefur verið alveg yndislegt…alltof fljótt að líða náttúrulega, en þannig er það alltaf. New York ferðin var frábær í alla staði.  Flugið gekk vel, fyrir utan það að við þurftum að bíða í klukkutíma í vélinni eftir lendingu sökum mikillar umferðar á JFK.  Það reyndi aðeins á þolinmæðina.   Fólkið sem við vorum hjá var alveg yndislegt og lét okkur líða eins og við værum heima hjá okkur.  Fyrsta daginn tókum við því rólega í Shirley, bænum sem við vorum í á Long Island, skoðuðum okkur aðeins um þar og versluðum í matinn, auðvelt að missa sig í matvörubúðunum enda úrvalið endalaust.  Daginn eftir tókum við fjölskyldan lestina inn í New York og eyddum deginum í að rölta á Manhattan, dúlla okkur í búðum og skoða okkur um.  Daginn eftir var ferðinni heitið aftur inn í borgina en planið var að hitta vinkonu mína sem kom frá North Carolina til að hitta okkur ásamt 2 börnum sínum..stelpu sem er jafngömul Kötlu og 8 mánaða strák.  En við kynntumst einmitt í gegnum póstlista á netinu fyrir jan2000 mömmur.  Það var virkilega gaman að hitta þau, stelpunum kom strax mjög vel saman og áttu eftir að skemmta sér mjög vel saman þó svo að þær skyldu hvor aðra ekki mikið:)  Þennan dag fórum við í American Girl Place en vinkonamín var að kaupa dúkkur þar handa 2 elstu stelpunum sínum….þessar dúkkur eru víst mjög vinsælar…hver dúkka er frá ákveðnu tímabili í bandarískri sögu og hægt er að kaupa ýmsa fylgihluti með hverri dúkku auk bóka þar sem þær eru aðalpersónan.  Búðin var ævintýraheimur út af fyrir sig, fyrir utan allt úrvalið af öllu sem fylgdi dúkkunum var m.a. bíósalur, veitingahús og staður fyrir myndatökur.  Eftir að hafa eytt ágætis tíma þarna var ferðinni heitið í American Museum of Natural History.    Safnið lokaði reyndar fyrr en við höfðum átt von á, en þegar við komum þangað var einungis um hálftími í lokun.  Af þessum sökum fengum við frítt inn og drifum okkur inn, náðum að skoða risaeðlubeinin sem var nú reyndar það sem við vorum spenntust fyrir.  En það verður bara efni í næstu ferð að skoða safnið betur:)  Safnið er staðsett við Central Park, þannig að við tókum okkur smátíma í að rölta þar um, sáum íkorna og þvottabjörn og krakkarnir léku sér í grasinu, mjög ljúft.  Við sáum samt bara lítið brot af garðinum, fleira sem er efni í aðra ferð:)  Eftir þetta var farið að síga á seinni hluta dagsins þannig að við fundum okkur veitingastað þarna nálægt og gripum með okkur tælenskan mat og tókum svo neðanjarðarlest á lestarstöðina, þaðan sem við tókum svo lest aftur til Shirley en ferðafélagar okkar tóku lest til bæjar sem heitir Ronkonkoma en þau gistu á hóteli þar.  Næsta dag var ferðinni enn og aftur heitið inn í borgina, en planið þann dag var að heimsækja Bronx Zoo . Við hittum vinkonu mína á Penn station og fundum þar rétta neðanjarðarlest til að komast til Bronx.  Við vorum búin að finna út að við ættum að fara út á ákveðinni stöð,en þegar við komum í lestina sáum við ekki nafnið á þeirri stöð á listanum yfir stoppistöðvarnar, þannig að við spurðumst fyrir í lestinni og einn farþeginn kíkti á kort fyrir okkur og sagði okkur á hvaða stöð væri best að fara út.  Þegar við komum þangað sáum við að við höfðum farið aðeins of langt og þurftum að labba smá spotta til að komast í dýragarðinn.  Reyndar leist okkur ekki alveg á blikuna þegar við komum út af lestarstöðinni…hehe….allt í frekar mikilli niðurníðslu og leið okkur svolítið eins og við værum stödd í bíómynd…enda er Bronx eitt af fátækari hverfunum í New York og þá sérstaklega svæðið í kringum dýragarðinn (fréttum við seinna).  Ég hefði allavega ekki viljað vera á gangi þarna eftir myrkur.  En þetta gekk alltsaman vel.  Dýragarðurinn var alveg magnaður, en þrátt fyrir að eyða 4 tímum þar (vorum komin seinna en við ætluðum okkur) þá náðum við ekki að sjá allt sem við höfðum ætlað okkur að skoða, en vorum samt mjög ánægð með daginn.  Krakkarnir skemmtu sér sérstaklega vel í barnadýragarðinum og pödduhringekjunni.   Daginn eftir var svo mjög ljúft að slaka á á ströndinni í Shirley, en vinkona mín og krakkarnir komu og eyddu þeim degi með okkur líka.  Við borðuðum svo öll kvöldmat saman og skutluðum þeim svo heim á hótel en þau þurftu að vakna snemma næsta morgun til að taka lest heim.  Næstu 2 dagar fóru svo í að versla, versla og versla aðeins meira:)  Það sem við gerðum svo það sem eftir var af ferðinni var að fara aftur inn í borgina, þann dag skoðuðum við Empire State sem var mikil upplifun, vorum heppin með veður þannig að útsýnið var mjög gott.  Við létum okkur „nægja“ að fara upp á 86. hæð en þar er aðal útsýnisaðstaðan, það er líka hægt að fara alla leið upp á 102. hæð.  Eftir það héldum við áfram að kanna borgina, gengum út á Brooklyn brúna, skoðuðum ground zero, var nú svosem ekki mikið að sjá þar…og Battery park..en þaðan er hægt að taka bát út að frelsisstyttunni, sem við gerðum ekki.  En sáum hana úr fjarlægð.  Við komum líka við á leikvelli þar sem stelpurnar skemmtu sér vel og þar hittum við íslenska konu sem býr í New York. Einum degi eyddum við svo í Adventureland skemmtigarðinum á Long Island sem var mjög skemmtilegur.  Katla ofurhugi fór í öll tækin og sum þeirra oftar en einu sinni:)  Við Sæbi skemmtum okkur líka mjög vel og það voru mörg barnatæki sem hentuðu vel fyrir Heklu.  Frábær dagur þar.  Svo fórum við í smá ferðalag með hjónunum sem við gistum hjá, keyrðum með þeim upp að West Point herskólanum en einn af sonum þeirra útskrifaðist þaðan í maí.  Þau sýndu okkur allt skólasvæðið sem var mjög gaman að sjá, mjög fallegt svæði.  Þau voru líka að sækja húsbíl sem þau eiga sem var í geymslu þarna nálægt og vorum við Sæbi og stelpurnar í honum á leiðinni tilbaka og létum fara vel um okkur.   Daginn eftir var svo flugið okkar heim og gekk það allt saman vel fyrir sig, þurftum reyndar aðeins að endurpakka á flugvellinum þar sem að ein af töskunum okkar var allt of þung en það blessaðist allt saman:)  En ég held að ég láti þetta nægja í bili:)  Er búin að setja inn myndir úr ferðinni….myndaalbúmið er læst en ef einhver vill kíkja er um að gera að senda mér línu og biðja um lykilorðið.

Auglýsingar