Sumar og sól

Já, við höfum fengið marga góðviðrisdaga að undanförnu og höfum við sólbrunnin nef til að sanna það:)  Svona á sumarið að vera.  Mamma og pabbi komu í heimsókn í síðustu viku, við skelltum okkur í bíltúr á laugardaginn að Gullfossi og Geysi, það var virkilega gaman, frábært veður og góður félagsskapur.  Komum svo aðeins við á Sólheimum í bakaleiðinni og keyptum okkur lífræna ávexti og grænmeti.  Annars hefur ýmislegt gerst síðan ég bloggaði síðast enda langt um liðið.  Meðal annars náði ég þeim merka áfanga að verða þrítug…neita því samt að vera komin á fertugsaldur…..það gerist ekki alveg strax:)  Annars líður mér nú bara vel með þetta.  Afmælisdagurinn sjálfur var mjög góður…fékk 30 rósir sendar til mín í vinnuna frá Sæba og stelpunum og ýmsar aðrar góðar gjafir.  Við fjölskyldan fórum út að borða daginn áður og svo hélt ég smá veislu 7. júní sem heppnaðist mjög vel.  Ég fékk líka hjól í afmælisgjöf og við keyptum svo stól á hjólið fyrir Heklu þannig að við stelpurnar höfum verið duglegar að hjóla um hverfið að undanförnu, nú þarf Sæbi að fara að fá sér hjól þannig að við getum öll skellt okkur í hjólatúra.  Katla komst í sumarfrí 6. júní og stóð hún sig mjög vel í skólanum að vanda skvísan.  Hún fór svo á fótboltanámskeið hjá Leikni vikuna eftir það og fékk svo að fara norður með mömmu og pabba á mánudaginn og ætlar að vera þar í 2 vikur.  Nú styttist líka í að við förum út en það eru ekki nema 10 dagar í það að Sæbi fari og 3 vikur hjá okkur stelpunum og við farin að hlakka mikið til.   Við áttum líka góðan dag í dag…vorum komin í bæinn um hálftvö..byrjuðum á því að fara á Arnarhól og vorum þar í um klukkutíma að horfa á skemmtidagskrána, Hekla var nú ekki alveg sátt við það að dagskráin skyldi byrja á Hamrahlíðarkórnum þegar hún var að bíða eftir því að sjá Skoppu og Skrítlu:)  En hún var svo líka mjög sátt þegar þær létu sjá sig.  Við tókum svo smá rölt um bæinn og rákumst á nokkra sem við þekktum.   Fórum svo í blöðruleiðangur en það var búið að lofa því að kaupa Dórublöðru og kom í ljós að þær fengust nú ekki í hverju einasta tjaldi.  En fundust að lokum og Hekla mjög ánægð með Dórublöðruna sína.  Fórum svo heim með smá viðkomu í Krónunni þar sem við keyptum smá á grillið.  Það vildi svo ekki betur til en svo að Hekla fór með blöðruna sína út á svalir og missti hana þar og var mikil sorg að sjá á eftir Dórublöðrunni..svo mikil að ég skaust í Hagkaup og keypti nýja blöðru handa henni…fann að vísu ekki aðra Dórublöðru en Strawberry Shortcake var tekin í sátt:)  Svo þegar átti að fara að koma prinsessunni í háttinn tók Sæbi eftir því að hamstrabúrið var ekki nógu vel lokað…aha…og hamsturinn ekki á sínum stað í búrinu!  Þá upphófst mikil leit að kvikindinu…..íbúðinni var bókstaflega snúið á hvolf…..og ekki fannst hamsturinn….komum Heklu í háttinn og héldum svo áfram að leita…áttum bara eftir að taka fram uppþvottavélina og ísskápinn…þegar ég heyri smáþrusk í eldhúsinu og fer að líta betur í kringum mig þar…kemur ekki hamsturinn trítlandi út á milli uppþvottavélarinnar og eldhúsinnréttingannar!  Vorum nú ekkert smá fegin að sjá að hann var lifandi.  Tók smá tíma að ná honum en hafðist sem betur fer að lokum.  Eitt gott kom reyndar útúr öllu þessu drama og það er það að við erum búin að þrífa á bakvið öll hugsanleg húsgögn og úr öllum skúmaskotum:)  Og það er á hreinu að það verður betur passað upp á það að búrið sé kirfilega lokað eftir þetta!

Auglýsingar