Jólamyndin í ár

Kíkti á kvikmyndir.is og sá mér til mikillar gleði að þessi mynd er væntanleg í desember…hlakka til:)  Ég vissi ekki að það stæði til að kvikmynda þessar frábæru bækur.

Auglýsingar

Komin heim frá Springfield

dsc00100.jpeg

Já, við Inga Rut skelltum okkur í tvöfalt þrítugsafmæli hjá Stínu og Hafrúnu á Hólmavík..sem reyndar breyttist í Springfield þetta kvöld.  Þema kvöldsins var semsagt Leiðarljós og dressin eftir því.  Ferðalagið byrjaði á því að ég tók rútuna í Borgarnes á laugardagsmorguninn.  Inga Sigga tók á móti mér í Hyrnunni og ég kíkti í heimsókn til hennar í nýju íbúðina, sem er alveg meiriháttar fín, enn og aftur til hamingju Inga mín:) Inga Rut kom svo fljótlega og við stoppuðum smástund áður en við lögðum í hann norður..tókum á okkur smá krók og stoppuðum á Laugarbakka hjá foreldrum hennar.  Við vorum svo komnar til Hólmavíkur um hálffimmleytið og fórum þá að hjálpa Stínu að stússast aðeins fyrir veisluna.  Kvöldið var svo bara mjög skemmtilegt í alla staði…..en daginn eftir hefði verið gott að hafa farið aðeins varlegar í bolluna….en við þurftum að leggja af stað um hádegið til þess að ég næði rútunni frá Borgarnesi sem fór rétt fyrir þrjú.  Ekki alveg skemmtilegasta ferðalag sem ég hef upplifað…say no more.  En ég var komin í bæinn um fjögur og rölti þá frá bsí niður í miðbæ, beint í 17. júni fjörið.  Hitti Sæba og stelpurnar þar…þau voru þá þegar búin að eyða 2 tímum í bænum þannig að við rétt tókum smá hring…enda var ég með ferðatösku á öxlinni og skærbleikt naglalakk sem ég tók með mér frá Springfield:)  Það var svo mjög ljúft að komast heim og eyða kvöldinu í rólegheitum. 

Nóg að gera…..

Annasöm vika að baki hjá mér.  Hekla Sif byrjaði í aðlögun í leikskólanum á mánudaginn.  Já, litla barnið mitt er orðið leikskólstelpa:)  Það stóð reyndar ekki til að hún kæmist inn fyrr en í ágúst en svo losnaði óvænt pláss hjá þeim og okkur var boðið að taka það.  Náttúrlega frábært að koma henni fyrr inn í leikskóla, en samt var ég nú með smá hnút í maganum yfir þessu öllu saman í byrjun.  Mér finnst hún ennþá svo lítil og hún hefur verið svo ánægð hjá dagmömmunni að ég kveið fyrir að láta hana hætta hjá Mundu sinni:)  En þetta er víst bara partur af prógramminu…lífið heldur áfram og tekur breytingum.   Svo gekk þetta allt saman alveg glimrandi vel.  Það er eins og barnið hafi ekki gert annað en að vera í leikskóla.  Á mánudaginn mættum við kl 8:30 og vorum til 11, ég var með henni allan tímann….svo á þriðjudaginn skrapp ég í kaffi í ca. hálftíma og það var ekkert mál..við vorum fram að hádegi þann dag.  Á miðvikudaginn var ég með henni í morgunmatnum, kvaddi svo (hún hafði varla tíma til að kveðja, var svo upptekin af því að leika við krakkana), kom svo aftur þegar hún var að fara að borða hádegismatinn. Hún vildi nú reyndar ekkert borða þá.  Svo á fimmtudaginn kvaddi ég hana bara fljótlega og hún var í leikskólanum fram yfir hvíld.  Ég átti ekki von á því að hún myndi sofna af því að hún er vön að sofa úti í vagni en þarna átti hún að fara að sofa inni og umkringd krökkum.  En það var eins og hún hefði aldrei gert annað, sofnaði á 10 mín.  með bangsann sinn í fanginu og var ennþá sofandi þegar ég kom að sækja hana.  Fimmtudagurinn var líka síðasti dagurinn hjá dagmömmunni og kvöddum við hana með miklum söknuði.  Við gáfum henni ostakörfu og kort með myndum af Heklu að skilnaði.  Og Hekla fékk ofsalega fallegar stuttbuxur og bol frá henni.  Alveg yndisleg kona og við eigum nú örugglega eftir að kíkja í heimsókn til hennar við tækifæri.  Á föstudaginn voru svo skólaslit í Hólabrekkuskóla.  Katla Dögg stóð sig mjög vel, hún fékk einkunn fyrir lestur, stærðfræði og íþróttir og brilleraði í öllu saman.  Fékk mjög góða umsögn í öðrum greinum og svo fékk hún þennan vitnisburð:

Katla Dögg er mjög góður námsmaður sem hefur staðið sig mjög vel í skólanum í vetur.  Hún er mjög glaðvær, vinnusöm og dugleg stelpa.  Framfarir mjög góðar. 

Við foreldrarnir erum að sjálfsögðu að rifna úr stolti yfir þessum duglegu skvísum:)

Þessa síðasta vika var líka frekar slitrótt í skólanum hjá Kötlu.  Síðasti dagurinn í Álfheimum var á þriðjudaginn, svo var ferð í húsdýragarðinn á miðvikudaginn og útivistardagur á fimmtudaginn.  Þannig að þetta voru svo smá reddingar í gangi.  Hún var með mér í vinnunni eftir hádegið á miðvikudaginn og fimmtudaginn og nánast allann föstudaginn.   Næstu 2 vikur verður hún svo á leikjanámskeiði hjá ÍTR og fer svo líklega norður til mömmu og pabba í viku.  Eftir það er ég komin í frí.  Svo sjáum við til hvernig þetta verður hjá okkur í ágúst.  Ég er svo að fara í þrítugsafmæli á Hólmavík næsta laugardag.  Þemað er Guiding light…hehe…þannig að nú verð ég að leggjast í rannsóknarvinnu í vikunni og stúdera klæðaburðinn þar:) Grunar að þetta sé spurning um að finna sér dress með herðapúðum, bleikan kinnalit og bláan augnskugga:)  Það styttist líka óðum í Þýskalandsferðina okkar….bara rétt tæpur mánuður til stefnu.  Kominn spenningur í mannskapinn.  Ég þarf að fara að drífa í því að sækja um vegabréf fyrir mig og stelpurnar og fara að skrifa niður hvað við þurfum að taka með okkur og svona:)  Þetta verður bara gaman:)