Fyrir ári síðan…..

20070331102556_4.jpg20070331100619_7.jpg20060412220726_3.jpg20070331103824_0.jpg

Fyrsta myndin er tekin í morgun…af systrunum að knúsast fyrir framan morgunsjónvarpið:)  Mynd númer 2 fyrir nokkrum dögum síðan.  Hinar myndirnar voru teknar í apríl í fyrra. 

Auglýsingar

Súkkulaði!!!

Það er alveg á hreinu að það er fitandi að eiga börn! Ég bakaði dýrindis súkkulaðiköku áðan…það er að segja að mínu mati….stelpunum fannst hún ekkert sérstaklega góð og þar sem að ég get nú ekki verið þekkt fyrir það að láta súkkulaði fara til spillis þá hámaði ég í mig þeirra skammt líka…..það vill til að þetta er kaka í hollari kantinum….er reyndar muffins uppskrift en ég nennti ekki að dúlla við að setja deigið í muffinsform heldur skellti þessu bara í eitt kökuform og úr varð ansi massíf súkkulaðikaka……en þrefaldur skammtur er kannski fullmikið af því góða.   

Ég byrjaði daginn á því að fara í páskabingó með Kötlu í Hólabrekkuskóla…við vorum ekki svo heppnar að fá vinning en skemmtum okkur engu að síður mjög vel.  Foreldrar og börn borðuðu svo nesti saman og svo var farið út í frímínútur.  Gaman að sjá að leikirnir hafa ekki breyst mikið í gegnum árin…..krakkarnir voru í snú snú og mamma segir komdu inn..það er svo mikil rigningin…hehe….maður kann þetta meira að segja ennþá:) 

Það beið okkar svo skemmtilegt bréf í póstkassanum þegar við komum heim..tilkynning um það að Hekla er komin með leikskólapláss á leikskólanum Hraunborg…veit ekki hvenær hún getur byrjað…þarf að hringja eftir helgina og staðfesta plássið, fæ þá nánari upplýsingar.  Ég býst nú ekki við því að það verði fyrr en eftir sumarfrí. Enda er það líka bara í fínu lagi.  Við erum nefnilega alveg í skýjunum með nýju dagmömmuna…það er alveg á hreinu að hún verður kvödd með miklum söknuði.  En það er samt gott að vera komin með staðfestingu á leikskólaplássi. 

Meiri snjór og maður lifandi

Jæja löngu kominn tími á nýtt blogg:)  Hélt að ég yrði ekki eldri í morgun…í fyrsta lagi þá var allt orðið hvítt einu sinni enn þegar ég leit út um gluggann…gærdagurinn gaf svona smá von um að það væri að koma vor en nei…..snjór og læti í morgun.  Svo byrjaði gamanið þegar við lögðum af stað í vinnuna…ég veit ekki hvort að fólk hefur fyllst bjartsýni í gær og streymt á dekkjaverkstæðin eða hvað en allavega þá tók það okkur um það bil hálftíma að komast yfir í seljahverfið með Heklu til dagmömmunnar og svo sátum við heillengi föst í bílaröð í götunni hjá henni…og svona til að taka stuttu útgáfuna af þessu þá var ég rúman klukkutíma á leiðinni í vinnuna eða ca. 45 mín lengur en venjulega….bara gaman eða þannig. 

Ég sótti svo stelpurnar eftir vinnu, við skutumst aðeins heim og fengum okkur að borða og svona og ég skutlaði þeim í pössun til tengdó.  Ég brunaði hinsvegar niður í maður lifandi og skellti mér á örnámskeið í skapandi skrifum hjá Þorvaldi Þorsteinssyni.  Þetta var mjög skemmtilegt.  Þetta var svona smá tilraunastarfssemi hjá honum því að þetta var fyrsta örnámskeiðið sem hann hefur verið með.  En mér fannst hann nú bara komast yfir heilmikið á þessum eina og hálfa tíma sem námskeiðið var.  Kjarni námskeiðsins var sá að vera ekki að miða sig of mikið við verk annarra og ekki að hengja sig í bókmenntafræðilegum reglum…heldur bara láta vaða og skrifa.  Skrifa um það sem þér þykir skemmtilegt, það sem vekur áhuga þinn.  Við fengum svo smá verkefni….fengum uppgefin nokkur orð og áttum svo að skrifa ævintýri á 10 mínútum.  Þetta voru svona klassísk orð sem koma fyrir í ævintýrum eins og kastali, prinsessa, dreki….og maður settist bara niður og skrifaði…reyndist alveg ótrúlega auðvelt og gaman að heyra hvað það urðu til ólík ævintýri.  Aldrei að vita nema maður drífi sig á „alvöru“ námskeið hjá honum einhvern daginn. 

Annars er bara allt gott að frétta hjá okkur….allir hressir….Sæbi á kafi í körfunni…meistaraflokkurinn kominn í úrslit í 1. deildinni, og það kom í ljós í kvöld að þeir mæta þar Stjörnunni…fyrsti leikur á laugardaginn.  Kannski maður sýni smá lit og skelli sér…hef nú ekki verið dugleg að mæta á leiki hjá honum í vetur.  En þetta er spennandi…allt að gerast. 

Ég var líka að skella nýrri uppskrift inn á matargatið…allir að kíkja:)

Speki dagsins í boði Garfield

Speki dagsins � boði Garfield

Little miss sunshine

Ég skellti mér á kaffihús á þriðjudagskvöldið, aldrei þessu vant, með Berglindi og Ásu.  Planið var að fara á Kaffibrennsluna, en eftir smá hringsól um miðbæinn í leit að stæði þá komumst við að því að Kaffibrennslan er lokuð vegna framkvæmda.  Þannig að við kíktum á Café París í staðinn, mjög fínt bara, hef ekki komið þangað síðan fyrir breytingar…hmm….ekki mjög dugleg í kaffihúsamenningunni.  Við fórum svo í 10 bíó í Regnboganum á Little Miss Sunshine.  Myndin var hreint út sagt frábær…langt síðan ég hef hlegið svona mikið í bíó……meira að segja magavöðvarnir vöknuðu af dvala…og þarf nú mikið til þess hehe:) Og salurinn klappaði þegar myndin var búin…..og það gerist ekki oft.   Mæli með þessari:)

Síminn til þín:)

Kominn tími til að skrifa smá fréttir af okkur.  Það hefur nú bara verið nóg að gera hjá okkur öllum að undanförnu.  Hekla er öll að hressast…..orðin góð í maganum og komin með matarlystina aftur.  Hún er líka orðin mjög ánægð hjá nýju dagmömmunni…..þau fara mikið út að leika hjá henni og Hekla er nú aldeilis ánægð með það.  Það er líka svo gaman að fylgjast með henni þessa dagana……málþroskinn hjá henni hefur heldur betur tekið kipp….alltaf að koma ný og ný orð hjá henni.  Nóg að gera hjá Kötlu líka….hún á sér meira félagslíf þessa dagana en foreldrarnir….hvert afmælið á fætur öðru í bekknum hjá henni…gengur vel í skólanum.  Svo er hún að fara að keppa á sínu fyrsta sundmóti á morgun…verður gaman að fylgjast með því.  Brjálað að gera í vinnunni hjá mér þessa dagana…..ætla að mæta í vinnu á morgun sem gerist nú ekki oft á laugardögum en það er svosem líka ágætt.  Sæbi verður líka að vinna þannig að stelpurnar fá að vera hjá Bjarna og Xuan á meðan.  Svo er leikur hjá honum seinnipartinn….allt á fullu í körfunni þessa dagana.  En það styttist í páskafríið sem betur fer…það verður voðalega notalegt..ekkert planað hjá okkur nema afslöppun og páskaeggjaát:)

Reyklaus í ár :)

Ég var að fá póst frá vinkonu minni í Kanada, við erum saman á póstlista og höfum verið undanfarin 7 ár.  Hún var að segja okkur á listanum frá því að í dag er ár síðan maðurinn hennar hætti að reykja.  Hún var að tala um hvað hún væri stolt af honum og svona upp á grín þá spurði hún okkur hvort að við værum ekki til í að senda honum smá línu í tölvupósti og óska honum til hamingju.  Ég gerði það og fékk svo svar frá honum til baka.  Skondið hvað heimurinn hefur breyst með tilkomu netsins, hér sat ég ofsalega jolly og ánægð með að einhver maður í Kanada sem ég hef aldrei hitt og kem líklega ekkert til með að hitta sé hættur að reykja…hehe…go Matt:)