Sit hérna og er að horfa á Respiro á RÚV með öðru …

Sit hérna og er að horfa á Respiro á RÚV með öðru auganu. Fór á þessa mynd í bíó á sínum tíma, vann miða á hana og fór með engar væntingar. Hún kom mér hinsvegar virkilega á óvart. Mjög sérstök mynd, falleg, fallegt fólk í henni og skemmtileg saga. Helgin var annars ágæt. Fór með Kötlu í leiklistina á laugardagsmorgun, við Hekla tókum smá rúnt á meðan. Sóttum svo Kötlu og fórum og hittum pennavin minn frá Frakklandi sem var staddur hér til að fara á Iceland airwaves. Það var mjög gaman að hitta hann, höfum hist tvisvar áður. Hittumst hjá Hallgrímskirkju og fórum svo og fengum okkur hádegismat á Grænum kosti. Ég færði honum blóðbergste að gjöf, stóð á pakkanum að það væri gamalt meðal við timburmönnum og kvefi. Ætti að koma sér ágætlega í Íslandsferð datt mér í hug. Svo ætla ég að stela hérna smá sem ég sá á annarri síðu, þetta er svona ný útgáfa af klukkinu nema að þetta er kitl, hér kemur það.

Sjö hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

1. Gifta mig.
2. Fara til Rómar og sjá colosseum.
3. Mennta mig meira.
4. Ferðast til bandaríkjanna, heimsækja pennavin minn þar og sjá svona týpískan amerískan smábæ.
5. Komast að öllu plottinu í LOST.
6. Fá mér kött.
7. Læra að prjóna.

Sjö hlutir sem ég get:

1. Ég kann að elda.
2. Get talað í símann, verið í tölvunni og gefið brjóst, allt í einu.
3. Ég á auðvelt með að setja mig í spor annarra.
4. Ég get bitið í tærnar á mér.
5. Ég get haldið úti bloggsíðu.
6. Ég get lesið mjög hratt.
7. Ég get komið manninum mínum á óvart.

Sjö hlutir sem ég get ekki:

1. Ég get ekki haldið ræðu.
2. Ég get ekki borðað rósakál.
3. Kann ekki að prjóna.
4. Ég kann ekki að spila á hljóðfæri.
5. Kysst mann með yfirvaraskegg.
6. Gæti ekki saumað flík til þess að bjarga lífi mínu.
7. Ég get ekki drukkið viskí.

Sjö hlutir sem heilla mig við hitt kynið:

1. Augun
2. Sítt hár
3. Góður húmor
4. Góðmennska
5. Skilningur
6. Herðarnar
7. Góð lykt

Sjö frægir sem heilla mig:

1. Johnny Depp (dead sexy og besti leikarinn í dag)
2. Viggo Mortensen (frábær sem Aragorn og virðist vera áhugaverður maður)
3. Páll Óskar (fíla hann sem tónlistarmann og skemmtilegur karakter)
4. Josh Holloway (sá sem leikur Sawyer í lost, flottur)
5. Naveen Andrews (leikur Sayid í lost, flottur gaur)
6. Stefán Hilmarsson (besti söngvari landsins)
7. David Letterman (alltaf fyndinn)

Sjö orð eða setningar sem ég segi oft:

1. Hvað segir þú?
2. Hæ!
3. Ég elska þig.
4. Sjáum bara til.
5. Katla Dögg!!!
6. Ekki vekja systur þína!
7. Mér er alveg sama.

Sjö hlutir sem ég sé einmitt núna:

1. Tölvan.
2. Sjónvarpið.
3. Vatnsglasið mitt.
4. Þvottagrindin.
5. Prjónadótið hennar mömmu.
6. Sjónvarpsfjarstýringin.
7. Vagninn hennar Heklu.

Jæja mér tókst að klára þetta, annað en 100 atriða listann sem er ennþá í vinnslu:) Ég kitla hér með Ingu Siggu, Sóley og Lísu, kitli kitli kitl!!!!

Auglýsingar

Það eru tveir veikindapésar á heimilinu núna. Kat…

Það eru tveir veikindapésar á heimilinu núna. Katla vaknaði í nótt og kom uppí til okkar, svosem ekkert óvenjulegt við það. Hún kúrði smástund hjá okkur og ég fór svo með hana aftur í sitt rúm. Eftir smástund kom hún aftur og kvartaði yfir að henni væri illt í maganum. Ég hugsaði með mér að þetta væri nú líklega bara trix til að komast aftur uppí. Ég potaði í Sæba og bað hann um að fara með hana aftur yfir og gefa henni vatnssopa. Ekki leið á löngu þar til hún var komin aftur. Ég fór með hana aftur yfir og lagðist hjá henni, ennþá kvartaði hún um magaverk sem ég tók mátulega mikið mark á. Svo heyrðist „mamma ég þarf að gubba“ og úbs, gusan yfir rúmið, kennir manni að taka mark á börnunum. Henni leið greinilega betur eftir þetta og eftir að búið var að þrífa og stússast þá sofnaði hún og svaf til morguns.
Það hittist svo skemmtilega á að þetta er einmitt dagurinn sem við áttum að mæta með bílinn á verkstæði kl 8 í morgun og Katla átti tíma hjá tannlækni kl 13. Og Sæbi orðinn veikur líka. En það þýðir ekkert annað en að reyna bara að redda málunum. Hringdum í tengdapabba, verkstæðið sem bíllinn var að fara á er nefnilega rétt hjá vinnunni hans. Þannig að hann reddaði okkur með það. Ég fór með bílinn og hann hitti mig þar og skutlaði mér svo heim. Svo var fenginn annar tími hjá tannsa, þannig að auðvitað bjargaðist þetta allt saman eins og alltaf. En við erum semsagt bara öll heima í dag. Vona bara að við Hekla Sif sleppum við þessa pest.

Rakst á þessa frétt, tek ofan af fyrir þessu fólki…

Rakst á þessa frétt, tek ofan af fyrir þessu fólki, þó að ég geti nú ekki sagt að ég öfundi það. En alveg frábært þar sem þetta virðist allt saman ganga vel hjá þeim og vel hugsað um börnin. Ég ætlaði nú að skrifa eitthvað meira en fröken Hekla Sif er ekki á því að mamma hennar eigi að hanga í tölvunni. Meira síðar.

Ég ætla að herma eftir því sem ég hef séð á nokkru…

Ég ætla að herma eftir því sem ég hef séð á nokkrum öðrum bloggsíðum og skrifa niður 5 atriði um mig:

1. Ég er svo heppin að eiga frábæran mann og tvær yndislegar dætur og ég elska þau útaf lífinu!

2. Ég veit ekki ennþá hvað mig langar til að verða þegar ég verð „stór“.

3. Ég er óvirkur sykurfíkill, hef ekki borðað mat með viðbættum sykri í laaangan tíma og vona að ég eigi ekki eftir að byrja á því aftur úr þessu.

4. Ég er með nettar áráttur, læt það t.d. fara í taugarnar á mér ef sokkarnir passa ekki við fötin og ég umorðaði þessa setningu svo að hún myndi byrja á „ég“ eins og hinar:)

5. Ég elska lyktina af nýþvegnum þvotti.

Klukka hérmeð Ingu Siggu!!! Þú ert næst!!!!