Hæhæ, Fór með Kötlu í fyrsta tímann á leiklistarn…

Hæhæ,

Fór með Kötlu í fyrsta tímann á leiklistarnámskeiðinu í gærmorgun. Það gekk mjög vel, fyrir utan það að við vorum svolítið seinar. Er ennþá að venjast því að þurfa að græja 2 börn til áður en ég fer út. Þetta er kennt í kramhúsinu og ég held að þetta séu nú bara undarlegustu húsakynni sem ég hef komið í. Rosalega lítið og einhverskonar sambland af gróðurhúsi, geymslu og svo er allavega einn mjög flottur salur þarna þar sem námskeiðið var kennt, eru örugglega fleiri. En inngangurinn er allavega mjög spes. En þetta er líka voða heimilislegt og kósí þarna. Námskeiðið er frá 10-11 á laugardagsmorgnum og það er ekki ætlast til að foreldrar horfi á þannig að við Hekla Sif röltum aðeins um Skólavörðustíginn á meðan og biðum svo bara frammi. Það er fullt af skemmtilegum búðum þarna í kring, en engin þeirra opnar svona snemma því miður. Á eftir að tékka á því hvort að það opnar eitthvað á Laugaveginum svona snemma, en annars er nú ekkert mál að taka bara smá rúnt á meðan eða kíkja í Kolaportið til dæmis. Kötlu fannst mjög gaman á námskeiðinu og það var greinilega mikið fjör hjá þeim miðað við það sem heyrðist fram.

Auglýsingar

Í morgun var hringt í mig frá leikskólanum vegna þ…

Í morgun var hringt í mig frá leikskólanum vegna þess að Katla kvartaði yfir tannpínu:( Ég og leikskólakennarinn ákváðum að bíða aðeins og sjá til, en svo var hringt í mig aftur vegna þess að hún hélt áfram að kvarta og bar sig frekar illa. Ég hringdi á stofuna þar sem tannlæknirinn hennar er til þess að freista þess að fá tíma fyrir hana, en því miður var tannlæknirinn hennar í fríi, en ég fékk tíma hjá öðrum tannlækni á sömu stofu. Það kom í ljós að tönn sem hafði verið sett bráðabirgðafylling í var ekki í góðum málum. Það þurfti að gera við nokkrar tennur í Kötlu fyrir nokkrum mánuðum síðan og var það ekkert mál fyrir hana, hún stóð sig algjörlega eins og hetja, alveg ótrúlegt hvað hún var dugleg og var alltaf til í að fara aftur, hoppaði inn á stofuna, þvílíkt glöð. En í dag var þetta virkilega erfitt, hún grét og leið greinilega mjög illa og ég var næstum því farin að gráta með henni:( Ég veit ekki alveg af hverju þetta gekk svona miklu verr núna, kannski af því að hún þekkti ekki tannlækninn, og hann notaði aðrar aðferðir en hinn. Mér fannst þessi líka einhvern vegin ekki ná nógu vel til hennar þó svo að hún væri mjög indæl. En allavega þá tók þetta verulega á og ég var farin að hugsa að nú væri hún orðin hvekkt og fengist ekki til að fara aftur til tannlæknis. En nei, hún er ótrúleg þessi stelpa, um leið og þetta var búið þá var hún orðin kát og glöð aftur og var eins og ekkert hefði í skorist. Þegar ég spurði svo aðeins þegar frá leið hvernig hefði verið hjá tannlækninum þá sagði hún „gaman“, algjör hetja:) Hún þarf svo að fara aftur á morgun, það var sett eitthvað efni í tönnina og svo bráðabirgðafylling yfir, þarf að fara á morgun til þess að taka þetta úr og setja almennilega fyllingu. Svo þurfum við greinilega að fara að herða okkur í tannhirðunni, við höfum nú reynt að passa vel upp á tennurnar hennar, burstum alltaf, en það er greinilega ekki nóg, spurning um að fara að nota tannþráð líka og kannski flúortöflur, höfum ekki verið með þær handa henni. Svo kom hjúkkan til mín í morgun til þess að kíkja á Heklu Sif, það gengur allt vel, hún er núna orðin 5 kg, þyngist vel. Naflinn hennar er ekki alveg gróinn ennþá, þannig að ég fór með hana niður á heilsugæslu í dag til þess að láta brenna fyrir. Ég man að það þurfti líka að gera þetta við Kötlu á sínum tíma. Svo skruppum við mæðgurnar allar þrjár saman í nettó, fórum svo heim í smástund og svo með Kötlu á körfuboltaæfingu. Þannig að það var nóg að gera hjá okkur í dag, þvílíkt flakk á okkur. En þetta gekk vel, og það var mjög ljúft svo loksins þegar við komumst heim.

Jæja, þá er haustið komið, síðustu dagar hafa einm…

Jæja, þá er haustið komið, síðustu dagar hafa einmitt verið svona fallegir haustdagar, kalt og ferskt loft þegar maður kemur út á morgnana og svo hlýnar þegar líður á daginn og sólin fer að skína. Eins og ég hef skrifað um hérna áður þá hellist alltaf yfir mig svona ákveðinn „haustfílingur“ á þessum tíma. Mig fer að langa til þess að elda matarmiklar súpur og djúsí pott- og ofnrétti. Við nokkrar vinkonur stofnuðum uppskrifta-bloggsíðu um daginn: Matargatið ég held að þessi síða geti átt eftir að verða skemmtilegt uppskriftasafn sem þægilegt verður að grípa til. Uppskriftirnar mínar eru nefnilega mjög svo óskipulagðar, eitthvað er reyndar í tölvunni, en annars er þetta svona hingað og þangað í bókum og á litlum miðum sem vilja týnast. Þannig að ég held að þetta sé ágætist leið til þess að geyma uppskriftir. Svo langar mig líka til þess að fara á eitthvað skemmtilegt námskeið, eins og ég hef gert undanfarin tvö ár. Þarf að fara að skoða hvað ég finn. Er bara búin að sjá eitt sem mig langar að fara á og það er kertagerð, held að það geti verið mjög skemmtilegt, en það er eflaust eitthvað fleira spennandi í boði. Katla Dögg byrjaði á sundæfingum um daginn, hún fór á tvö námskeið hjá Ægi í vetur og vor og hafði mjög svo gaman og gott af því. Þá voru tvær vinkonur hennar af leikskólanum á sömu námskeiðum, mjög skemmtilegt. Svo ákváðum við að leyfa henni að halda áfram núna, og hún fluttist þá yfir í eldri hóp. Þetta fannst henni ekki jafn skemmtilegt, skiljanlega af því að það vantaði vinkonurnar, en okkur fannst þetta líka frekar stórt stökk úr námskeiðinu sem hún var á síðast. Þetta eru meira svona alvöru sundæfingar og henni leist ekki nógu vel á þetta. Við ákváðum því láta hana hætta, ekki sniðugt að hún sé í þessu ef hún hefur ekki nógu gaman af því. Hún er byrjuð að æfa körfubolta með Haukum í staðinn, fór á fyrstu æfinguna á þriðjudaginn og fannst mjög gaman, fer aftur á morgun. Eini gallinn er að það er svolítið langt að fara í Hafnarfjörðinn, miðað við sundið sem er hérna í Breiðholtslaug, en maður lætur sig hafa það. Svo skráðum við hana líka á leiklistarnámskeið í Kramhúsinu, þannig að það verður nóg að gera hjá henni í vetur. Hekla Sif kom með á fyrstu körfuboltaæfinguna, svaf allan tímann:) Hún lætur nú ekki hafa mikið fyrir sér blessunin, drekkur og sefur vel, algjört yndi. Katla er alveg að finna sig í stóru systur hlutverkinu, vill mikið vera með hana, stundum of mikið, en er mjög góð við hana. Hún var reyndar ekki alveg sátt í gærkvöldi þegar Hekla Sif truflaði okkur við lesturinn fyrir svefninn, en fyrirgaf henni það samt fljótlega:)