Þessi dagur byrjaði nú bara mjög vel. Ég byrjaði …

Þessi dagur byrjaði nú bara mjög vel. Ég byrjaði á því að fara í sónar, var svo heppin að fá þetta fína stæði. Það vita þeir sem til þekkja að það jafngildir því að vinna í lottóinu að fá stæði hjá lansanum. Sónarinn gekk vel, það var verið að athuga stærðina á krílinu. Það er orðið 1.300 gr., sem er víst bara meðalstærð. Magn legvatnsins var líka alveg eðlilegt. Gott að heyra að allt lítur vel og alltaf gaman að sjá krílið:) Bumban heldur áfram að mælast stór, ég er núna komin 28 vikur, og bumban mældist 32 cm í morgun. Ég fór semsagt í mæðraskoðun eftir sónarinn, það gekk allt saman vel, nema það mældist sykur í þvaginu, var reyndar nýbúin að borða þannig að það gæti verið skýringin. Svo þurfti ég að bíða eftir að hitta lækninn, ég er nú orðin vön þessari bið og hætt að kippa mér upp við hana, tek bara með mér bók og hef það gott. Kláraði „Hitchikers guide to the galaxy“ á meðan ég beið (ég þurfti reyndar ekki að bíða svo lengi að ég læsi alla bókina, var byrjuð á henni áður) og ætla svo að skella mér á myndina í kvöld. Svo þegar ég var búin í skoðuninni þá fór bíldruslan ekki í gang, grrrr, þannig að ég hringdi í Sæba og hann kom og bjargaði mér, sýndi mér svo hvað á að gera til að koma druslunni aftur í gang, þannig að vonandi get ég reddað mér ef þetta kemur fyrir aftur. Er sko orðin ýmsu vön í sambandi við þennan bíl. Við þurftum svo aðeins að stússast í hádeginu þannig að ég mætti ekki í vinnuna fyrr en hálfeitt, þurfti svo að fara aftur um hálftvö til að fara með Kötlu til læknis. Mætti svo reyndar aftur eftir það, þannig að ég var samtals í ca 2 og hálfan tíma í vinnunni í dag, geri aðrir betur. En ég ætla að hætta þessu í bili og fara að fá mér eitthvað að borða áður en ég fer í bíó.

Auglýsingar

Jæja, þá er mini sumarfríið okkar búið. Við komum…

Jæja, þá er mini sumarfríið okkar búið. Við komum heim frá Köben síðasta mánudag. Ferðin var frábær í alla staði. Hótelið okkar var fínt. Okkur brá pínulítið þegar við komum upp í herbergið okkar fyrsta daginn, það var í fyrsta lagi frekar lítið, og í öðru lagi var í lýsingunni á herberginu að það væri baðherbergi með sturtu. Við fyrstu sýn sáum við ekki þessa sturtu sem átti að vera þarna en svo áttuðum við okkur á snilldinni, það var nefnilega sturtuhaus tengdur við vaskinn og svo var festing fyrir hann á veggnum. Einnig var sturtuhengi til staðar sem maður dró fyrir og skildi þannig að klósettið og sturtuna. En þetta reyndist svo vera hin ágætasta sturta þegar til kom. Virkaði fínt og það skiptir mestu máli. Morgunmaturinn á hótelinu var líka mjög góður og allt hreint og snyrtilegt þannig að við vorum bara mjög ánægð með þetta hótel. Ég nenni nú reyndar ekki að skrifa alla ferðasöguna hér inn, en svona það helsta sem við gerðum var að rölta strikið, versla aðeins, við fórum tvisvar sinnum í tívolíð. Fórum reyndar ekki í nein tæki, erum kannski ekki alveg þau allra hugrökkustu hehe, ég hafði reyndar fína afsökun af því að flest tækin voru ekki leifð fyrir bumbulínur, en ég efast nú reyndar um að ég hefði þorað t.d. í rússíbanann, þó svo að ég hefði mátt fara. Hmm..hvað gerðum við nú fleira, jú við fórum í dýragarðinn sem var alveg geggjað, ekkert smá gaman að sjá t.d. ljón, fíla, gíraffa, apa, tígrísdýr og fleiri dýr svona með eigin augum. Svo var líka mjög skemmtilegur hitabeltisdýragarður þarna þar sem við sáum t.d. slöngur, krókódíla, eðlur, fiðrildi sem flögruðu þarna um allt, að ógleymdum ýmsum tegundum af mjög ókræsilegum pöddum *hrollur*, pöddurnar voru í svona litlum boxum, nema hvað í sumum boxunum voru bara alls engar pöddur, heldur skilti sem á stóð að þessar tilteknu pöddur væru fluttar tímabundið, fluttar hvert? hugsaði maður nú bara, *hrollur*, klæjar ennþá við tilhugsunina. Við fórum líka niður að Nýhöfn, röltum þar um og skoðuðum Rósinborgarhöll. Þetta er nú svona það helsta held ég. Svo fórum við út að borða á hverju kvöldi og maturinn var geggjaður! Við vorum allavega bæði mjög hrifin af Kaupmannahöfn og værum alveg til í að fara þangað aftur einhverntíman. Væri líka gaman að taka Kötlu með, það er svo margt skemmtilegt að gera þarna fyrir börn.

Ég skora svo á alla að kíkja á Eurovision.is mjög skemmtileg síða, þarna eru t.d. myndir, blogg frá eurovision förunum okkar, en það sem mér finnst best er að það er hægt að skoða öll framlög Íslands frá upphafi, bæði myndböndin og líka frammistöðuna í keppninni, mæli með því að kíkja á Gleðibankann, mjög fyndið. Eftir að hafa rifjað upp þá frammistöðu er ég nú bara hissa á að það lag hafi yfirhöfuð ná 16. sætinu:)