Menningarnóttin var frábær!!! Við reyndar vorum e…

Menningarnóttin var frábær!!! Við reyndar vorum ekkert mikið í því að kíkja á viðburðina, en vorum aðallega bara á röltinu að skoða fólkið og skemmta okkur. Ég, Inga Rut, Katla og mamma og pabbi skelltum okkur í bæinn fljótlega eftir hádegið og röltum niður Skólavörðustíginn og svo Laugaveginn….ofsalega gaman að rölta þarna um..þarf að gera það oftar. Það er svo mikið af skemmtilegum búðum á þessu svæði…ég er bara svo innilega lítil miðbæjarrotta, þannig að ég rölti þarna svona kannski einu sinni á ári.

En allavega við fórum í geggjaða búð á Laugaveginum sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir en hún er við hliðina á Englabörnum. Þarna fæst allskonar krydd, sem er framleitt í suður-afríku að mig minnir…hrikalega girnilegar kryddblöndur, og allavega svona sælkeradót og sniðugir hlutir. Ég keypti mér áhyggjubrúðu, eða „guatemalan worry people“, þetta er svona pínkulítil brúða og það fylgir poki með henni, og virkar þannig að maður á að segja brúðunni áhyggjur sínar, setja hana svo í pokann og sofa með hana undir koddanum og morguninn eftir hefur brúðan tekið á sig allar manns áhyggjur.

Ætla að prófa þetta við tækifæri, en þessi siður er víst upprunninn frá Maya indíánum í Guatemala. Svo var annað sem við sáum sem mér finnst alveg meiriháttar og þvílík snilldarhugmynd…það var verið að selja litlar plastendur á Laugaveginum, svona litlar til þess að leika sér með í baði….þetta er til styrktar átakinu Blátt áfram sem er átak til þess að vekja athygli á kynferðislegu ofbeldi á börnum og að fá foreldra til þess að fræða börnin sín um þessi mál. Hugmyndin er sú að fólk kaupir önd, fær miða með númeri á og svo á að mæta með öndina í Elliðaárdalinn 4. sept og þar verður númerið skrifað á endurnar og þeim svo fleytt á Elliðaánum einhverja vissa vegalengd og sú önd sem kemur fyrst í mark vinnur verðlaun. Pabbi og mamma keyptu eina önd og við ætlum að mæta með hana í kappsundið fyrir þau, þar sem þau verða farin aftur norður þegar þetta er.

Katla setti öndina strax í strangar æfingabúðir í baðvaskinum, vonandi skilar það sér þegar stóri dagurinn rennur upp.

Við fórum svo heim aðeins þegar við vorum búin að þessu rölti, fórum reyndar líka aðeins í Kolaportið, alltaf gaman að kíkja aðeins þangað. Við Inga Rut bjuggum svo til pítsu um kvöldið sem heppnaðist alveg frábærlega vel þó að ég segi sjálf frá. Orri kom svo í pössun til okkar og við skelltum okkur í bæinn um níuleytið, fundum stæði rétt hjá aktu-taktu, og löbbuðum upp á Laugaveg og svo niður hann. Við Inga Rut vorum greinilega ekki alveg að horfa mikið í kringum okkur því að við vorum næstum því búnar að labba framhjá sjálfum Forrest Whittaker án þess að taka eftir honum og hefðum gert það ef Sæbi hefði ekki bent okkur á hann. Hann var bara þarna á röltinu í góðum fíling, mjög vingjarnlegur virtist vera, allir að stoppa hann og heilsa honum og fá eiginhandaráritanir, við kunnum nú ekki við að svífa á hann en það var samt gaman að sjá hann þarna.

Við röltum svo bara um í bænum, gerðist reyndar eitt frekar skondið Við Inga Rut skruppum aðeins inn í 10-11 Austurstræti en Sæbi beið fyrir utan með krakkana, svo þegar við komum aftur þá er einhver stelpa að tala við hann og við héldum að þetta væri bara einhver sem hann þekkti, en svo fer hún að taka myndir af honum og hripa eitthvað niður hjá sér á blað og við skiljum ekki alveg hvað er í gangi. Þá var þessi stelpa að leita að aukaleikurum í myndina „A little trip to heaven“ sem Baltasar Kormákur er að gera. Hún semsagt tók myndir af honum og fékk símanúmerið hans og svo verður hringt í hann einhverntíma í september og þá kemur í ljós hvað verður úr þessu. Frekar fyndið en verður örugglega skemmtileg reynsla fyrir hann ef það verður eitthvað úr þessu.

Við fórum svo út á hafnarbakka og hlustuðum á afganginn af tónleikunum, náðum Ego, þar hittum við Bjarna og Erlu og skiluðum Orra af okkur, en hann var í þvílíku stuði, sko ekkert mál að vera með hann með okkur. Flugeldasýningin var svo alveg meiriháttar, hún virðist alltaf vera betri en árið á undan þó svo að maður haldi að það sé ekki hægt.

En þetta er orðin lengsta bloggfærsla sem ég hef á ævi minni skrifað þannig að ég ætla ekki að hafa þetta lengra:)

Auglýsingar

Jæja, best að segja aðeins frá helginni. Við vink…

Jæja, best að segja aðeins frá helginni. Við vinkonurnar sem kynntumst í FVA vorum með svona smá „reunion“. Við erum búnar að vera að tala um þetta svo lengi og létum svo loksins verða af þessu núna. Við byrjuðum á því að hittast í íbúð sem ein okkar tók á leigu, fínasta íbúð á góðum stað, stutt í allt. Hittumst þar og spjölluðum og kíktum svo aðeins í kringluna og versluðum smá veigar fyrir kvöldið. Svo var nú fljótlega bara kominn tími til þess að fara að hafa okkur til en stefnan var svo sett á veitingastaðinn Ítalíu um kvöldið. Við mættum þangað um áttaleytið og gáfum okkur góðan tíma til að stúdera matseðilinn á meðan við biðum eftir því að ein bættist í hópinn.

Ég fékk mér pastarétt, tagliatelle með kjúklingi, lauk, sveppum og parmesanosti í hvítvínssrjómasósu..mmm…bragðaðist alveg jafn vel og þetta hljómar. Við vorum allar mjög ánægðar með matinn og þjónustuna og þessi staður er bara alveg frábær, lítill, kósí og notalegur. Ég er alveg ákveðin í því að fara þarna einhverntíma aftur:) Við höfðum svo hugsað okkur að kíkja jafnvel eitthvað í bæinn á rölt eftir matinn, en ákváðum svo að fara bara upp í íbúð í staðinn og sátum svo þar og spjölluðum og rifjuðum upp gamla tíma fram á nótt. Þetta var alveg frábært kvöld og við erum ákveðnar að hafa þetta árvissan viðburð héðan í frá, ekki spurning:)

Ég var farin að sakna quizilla þannig að ég smellt…

Ég var farin að sakna quizilla þannig að ég smellti mér þangað og tók þetta próf:

Aphrodite
Aphrodite/Eros

?? Which Of The Greek Gods Are You ??
brought to you by Quizilla

Það voru nú eiginlega engin ný krassandi próf þarna…en þetta dugar:) Annars hef ég frekar lítið að segja, lífið farið að ganga sinn vanagang aftur, við byrjuð að vinna og prinsessan í leikskólanum…að vísu er hún í fríi þessa viku. Hún fór upp í sveit í gær með Erlu og Orra og kemur aftur á föstudaginn. Mjög mikill spenningur i gangi að fá að fara í sveitina hans Orra frænda og hitta öll dýrin. Við hringdum aðeins í hana í gær, þá var hún nýkomin úr fjósinu og var mjög ánægð með þetta allt saman, hafði fengið að gefa kálfi að drekka úr pela og fékk að fylgjast með því þegar var verið að mjólka kýrnar.

Hún kemur aftur heim á föstudaginn….svolítið skrítið að hafa hana ekki heima en gaman hvað hún skemmtir sér vel:)