Ég fór á tónleika í gærkvöldi í Háteigskirkju, með…

Ég fór á tónleika í gærkvöldi í Háteigskirkju, með Páli Óskari og Moniku (þ.e. þau voru að spila á tónleikunum, ég fór ekki með þeim (flottur þessi hehe)). En ég verð að segja það að ég er varla komin niður á jörðina ennþá. Þetta var hreint út sagt yndislegt! Hver gullmolinn á fætur öðrum og ég er þess fullviss að betri bólusetning gegn jólastressinu er ekki til. Innkoman hjá Páli var mjög grand, enda ekki við öðru að búast af honum, hann gekk syngjandi inn kirkjugólfið í rauðum jakkafötum (þeim sömu og hann var í hjá Gísla Marteini um daginn og einhver kommenteraði á að hann liti út eins og kínverskt teboð í þeim:)) Diddú söng svo nokkur lög með honum, og tvö lög ein á meðan Palli fór og skipti um föt.

Einnig kom fram sönghópur (sem ég man ekki nafnið á), en var alveg frábær. Þessi stund var því miður alltof fljót að líða, en það var svo óvænt ánægja að Páll og Monika settust fram eftir tónleikana og árituðu diskana sína fyrir þá sem vildu. Við Inga Rut splæstum á okkur nýja disknum þeirra og ég framlengdi tónleikana aðeins þegar ég kom heim. Þessi diskur er alveg frábær, verður án efa mikið spilaður á mínu heimili, alveg eðal til að hlusta á í skammdeginu við kertaljós:) Ég mæli semsagt hiklaust með þessum diski, og fyrir þá sem komust ekki á tónleikana, þá var verið að tala um það þarna í gær að það yrðu mjög líklega aukatónleikar:)

Auglýsingar

Jæja, kannski ég reyni að skrifa eitthvað smá:) H…

Jæja, kannski ég reyni að skrifa eitthvað smá:) Helgin var fín. Það var mót hjá Sæba um helgina, og gekk bara ágætlega. Við Katla vorum bara heima á laugardaginn, vorum hrikalega duglegar og tókum til, ég skúraði meira að segja, ekki beint daglegt brauð á mínu heimili, enda fengi ég seint verðlaun sem húsmóðir ársins. Svo fengum við fjölskyldan okkur göngutúr útí Nóatún í rigningunni eftir matinn, einstaklega hressandi. Horfðum svo á söfnunarsjónvarpið fyrir Sjónarhól, frábært hvað það gekk vel að safna. Katla var alsæl að sjá Línu Langsokk og toppnum var nú aldeilis náð þegar Lilli klifurmús og Lína tóku lagið saman:) Í gær fórum við Katla svo á búðarrölt. Fórum á lagersöluna hjá Leikbæ og gerðum heldur betur góð kaup, keyptum þarna nokkrar jólagjafir. Kíktum svo í Kringluna, en þar fóru fram úrslit í fatahönnunarkeppni grunnskólanema. Birgitta, frænka mín var þar á meðal keppanda og stóð sig sérdeilis vel. Við Katla sóttum svo Sæba þegar mótið var búið og kíktum aðeins í Smáralind, keyptum þar 2 jólagjafir í viðbót. Erum ekkert smá dugleg þessa dagana, bara að verða búin að kaupa allar jólagjafirnar, fínt að vera svona snemma í því:) Já, þetta er svona það helsta frá helginni…held að ég láti þetta bara duga í bili:)

Enn ein helgin að verða búin, merkilegt hvað helga…

Enn ein helgin að verða búin, merkilegt hvað helgarnar eru alltaf fljótar að líða. Ég er líka viss um að tíminn fram að jólum á eftir að fljúga framhjá mér. Ég man þegar ég var lítil þá vildi ég að sjálfsögðu að jólin kæmu sem allra fyrst. En núna vildi ég helst hægja aðeins á tímanum í desember, mér finnst aðventan skemmtilegasti tíminn, jólin sjálf eru svo fljót að líða þegar þau eru gengin í garð. Katla er farin að tala um jólin og hlakka til. Við fórum í Garðheima á föstudaginn og þar var verið að stilla upp aðventuljósum í glugga og hillurnar orðnar fullar að jóladóti. Mín var nottulega mjög ánægð með að sjá allt jóladótið. Helgin var frekar róleg hjá okkur. Sæbi fór til Ísafjarðar í keppnisferð á laugardagsmorguninn, það leit nú ekki vel út með veðrið en þeir komust vestur, og unnu leikinn sem var alveg frábært. Það var svo mjög líklegt að þeir yrðu veðurtepptir en sem betur fer datt þeim í hug að kíkja út á völl eftir leikinn, upp á von og óvon og þá var akkúrat að fara vél. Þannig að þeir komust í bæinn aftur seinnipartinn. Á meðan á þessu stóð kúrðum við Katla og höfðum það gott heima.

Hún kvefuð og slöpp og ég löt:) En það eru gleðfréttir af lúsinni, hún virðist vera horfin og mér til mikillar ánægju sleppti hún því að heimsækja okkur:)